Prentsmiðjueintök

Prentsmiðjusaga Íslands – eftir Svan Jóhannesson


Bókin kom fyrst út árið 2014 og er umfjöllun um prentsmiðjueintök höfundar og þær prentsmiðjur sem koma þar við sögu. Hér er um að ræða tímabil sem nær frá aldamótum 1800 og fram yfir aldamótin 2000.

Prentsmiðjueintak skilgreinir höfundur sem sýniseintak úr hverri prentsmiðju fyrir sig en bókin fjallar um allar helstu íslensku bókaprentsmiðjurnar yfir 200 ára tímabil og að auki nokkrar danskar prentsmiðjur sem prentuðu fyrir Íslendinga á 19. öld. Fjölritunarstofur eru einnig hafðar með, en sumar þeirra skipuðu stórt menningarlegt hlutverk á síðustu öld.

Má segja að þessi bók sé tilraun til að segja sögu íslensku prentsmiðjanna og þeirra prentara sem þar störfuðu/starfa og að auki er hér að finna ýmsan fróðleik sem ekki hefur verið skráður á bók fyrr, m.a. um marga forvígismenn prentsmiðjanna.

Alls eru prentsmiðjurnar um 130, fjallað er lítillega um þær bækur sem smiðjurnar prentuðu og litmyndir eru af hverri bók, kápusíðum, titilsíðum og baksíðum — ef þar er að finna nafn viðkomandi prentsmiðju. Myndir af höfundum, prenturum og fleirum eru yfir 350 talsins.
Aðeins örfá eintök eru eftir af seinni prentun bókarinnar frá árinu 2015.



Upplýsingar

  • Fjöldi síðna: 194 síður
  • Útgefandi: Svanur Jóhannesson (2. útgáfa janúar 2015)
  • Gerð: Kilja
  • Tungumál: Íslenska
  • ISBN: 978-9979-72-746-0

Svanur Jóhannesson



Svanur Jóhannesson er bókbindari að mennt. Hann hóf snemma að vinna að félags- og hagsmunamálum bókagerðarmanna og sat í stjórn Bókbindarafélags Íslands í 16 ár, þar af í 7 ár sem formaður. Hann sat síðan samfellt í stjórn Félags bókagerðarmanna í nær tvo áratugi eftir að félög í prentiðnaði sameinuðust árið 1980. Svanur sat í ritnefnd bókarinnar Prent eflir mennt eftir Inga Rúnar Eðvarðsson, sögu bókagerðar frá upphafi til síðari hluta 20. aldar og í ritnefndum stéttartals og sögu bókagerðarfélaganna frá 1994. Hann hefur auk þess ritað fjölda greina í tímaritið Prentarann frá árinu 1981.




Prentsmiðjueintök í Kiljunni


Egill Helgason ræðir við Svan Jóhannesson um sýningu hans og nýútkomna bók: Prentsmiðjueintök – Prentsmiðjusaga Íslands.
Kiljan 29. október 2014.